Þeir þremenningar, séra Eðvarð Ingólfsson, sóknarprestur á Akranesi, Ragnar Bjarnason söngvari og spaugari og Þorgeir Ástvaldsson útvarpsmaður og tónlistarmaður, hafa frá 2007 staðið að árlegri tónlistarguðsþjónustu, sem vakið hafa mikla athygli, í Akraneskirkju. Húsfyllir hefur verið hverju sinni.
Í guðsþjónustunum syngur Ragnar þekkt lög við píanóundirleik Þorgeirs en presturinn byggir brú á milli laganna með stuttri hugvekju hverju sinni.
„Þetta eru lög um lífið og tilveruna; ástir og ástarsorg, náttúrufegurð, rómantík og sjómennsku, lög sem gott er að prédika út frá,“ segir Eðvarð.
Leiðir liggja aftur saman
Þeir félagar hafa þekkst lengi. Eðvarð var í hópi fyrstu dagskrárgerðarmanna á Rás 2 eftir að hún tók til starfa 1983 undir stjórn Þorgeirs Ástvaldssonar. Hann kynntist síðan Ragnari Bjarnasyni þegar hann ritaði ævisögu hans 1992. Þorgeir, sem er einn af þekktustu útvarpsmönnum þjóðarinnar, starfaði með Ragnari í 4 sumur í hinni þjóðþekktu Sumargleði.
Leiðir þremenninganna liggja nú aftur saman en í þetta sinn á kirkjulegum vettvangi. Þeir munu „messa“ í áttunda skipti í Akraneskirkju nk. sunnudag, 8. febrúar, kl. 17.
En hvernig kynnir presturinn dægurtónlistina í sjálfu guðshúsinu? Lagið Suður um höfin er dæmigert:
„Lífinu er oft líkt við siglingu. Stundum er siglt við blíðan byr en stundum er barist áfram í ofsaveðri. Þessu er svipað farið í lífinu. Í næsta lagi heyrum við um lífssiglingu, drauma og vonir – og sólgyllta strönd… Suður um höfin… svífur minn hugur þegar kólna fer… Þangað siglum við fleyi okkar til að kanna ókunn lönd. Öll skip leita hafnar um síðir. Líka lífsskipið okkar þegar dagur er að kveldi kominn.”
Vertu ekki að horfa…
Ragnar og Þorgeir eru alltaf klappaðir upp í messulok. Ragnar syngur þá aukalag, eitt af vinsælustu dægurlögum allra tíma, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig. Hann kynnti það sjálfur með þessum orðum í kirkjunni í fyrra:
“Þetta lag söng ég 1960; það var árið sem presturinn ykkar fæddist, árið sem John F. Kennedy var kosinn forseti Bandaríkjanna, og árið sem Þorgeir Ástvaldsson lokaði gamla kerlingu í Dölunum inni í hæsnakofa heilan dag en þá var hann aðeins 10 ára…”
Ragnar Bjarnason verður 81. árs á þessu ári. Þeir sem mæta í Akraneskirkju á sunnudaginn munu sannreyna það að hann er alls ekki búinn að syngja sitt síðasta.!