Sælir eru…. Þannig byrjar sjálfsagt ein þekktasta ræða heims. Jesús hafði tekið sér stöðu á fjallinu. Þær þúsundir sem fylgdu honum biðu eftir orðum hans. Strax þarna, í fyrstu köflum guðspjallsins, þegar Jesús er rétt að hefja starf sitt, er mikill fjöldi fólks sem fylgir honum.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það var sem dró fólk að Jesú? Hvers vegna átti hann alla þessa fylgismenn, svona snemma. Sjálfsagt er það margt sem skiptir máli, kraftaverkin, lækningarnar, viðmótið og svo orðin. Orðin sem hann mælti, það sem hann sagði. Það voru nefnilega orð sem breyttu, sem settu allt á hvolf. Sælir eru fátækir, sælir eru friðflytjendur, hver segir svona? Orð hans snertu svo djúpt, það eru orð hans sem snúa öllum mælikvörðum þessa heims á hvolf. Ég hugsa mér að þau sem heyrðu þetta fyrst hafa andvarpað af gleði: Vá, loksins einn sem segir: sælir eru hógværir, miskunnsamir, friðflytjendur.
Það er eitt að velta fyrir sér hvað þeim fannst, þeim sem hlustuðu fyrst, en það er annað og mikilvægara að beina spurninguni að sjálfum sér. Hvað finnst þér? Sælir eru hógværir, miskunnsamir, friðflytjendur! En það er líka mikilvægt að horfa til baka, ég held stundum að við áttum okkur hreinlega ekki á því hversu djúpstæð orð Jesú voru og eru, hvernig þau setja í raun allt úr samhengi, eða kannski öllu heldur í rétt samhengi.
Hann er sá sem hampar hógværðinni, miskunnseminni, að færa frið. Í stað þess sem einatt virðist, að frekjan, ofbeldið og ofstopinn gildi. Loksins er einn sem segir: Elskaðu óvin þinn, ekki niður með andstæðinginn, loksins einn sem segir, hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
Og síðan þá hafa margir orðið til að fylgja meistaranum frá Nasaret og um leið hafa margir orðið til að lýsa honum, hvort sem það er með orðum sínum, tónlist, jú eða myndlist. Teikning eða málverk af Jesú getur þó aldrei orðið nákvæm lýsing á útliti hans hún er frekar túlkun listamannsins á orðum hans og verkum. Hér í Akraneskirkju er altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara og er hún ein af myndum hans eftir upprisumynd danska málarans Gustav Theodor Wegener og kom hún í Garðakirkju árið 1871. Svo gamalt listaverk er eðlilega farið að láta á sjá og undanfarin mánuð hefur listamaðurinn og forvörðurinn Bjarni Skúli Ketilsson eða Baski unnið að hreinsun og viðgerð á töflunni. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með honum að störfum, dýptin sem áður prýddi listaverkið, en hætt var að sjást, er komin fram á nýjan leik og litirnir verða skýrari, það er eins og Kristur sjálfur sé að koma út úr þokunni. En það er Kristur á listaverkinu, hvernig er með þann Krist sem vill snerta hjarta þitt, sem vill taka þátt í lífi okkar. Stundum er hann líka þokulagður, getum við hreinsað hjarta okkur og leyft honum að komast að, leyft honum að umbreyta og bæta.
Þokulagt hjarta er ekki undarlegt, það er eðlilegt og þá sérstaklega í tímum sorgar og erfiðleika. Við erum stödd hér í kvöld á Allra heilagra messu, til að minnast látinna og þá sérstaklega þeirra sem kvatt hafa á þessu ári. Við erum mörg sem sitjum með söknuð og sársauka og minnumst þeirra sem gengin eru frá okkur. Spor sorgarinnar eru þung og dauðinn verður ekki aftur tekinn. Í katakombunum í Róm fannst áletrun frá ofsóknartímum, þegar kristnir menn leituðu þar skjóls undan ofsóknum og ofbeldi – þar stóð. Í þessu myrkri er ljós.
Hin lifandi von varpar einmitt ljósi inn í myrkur dauðans.
Það getur verið erfitt að koma auga á vonina, en munum að í þessu myrkri býr ljós. Það er ljós Krists, þess sem sagði
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Kristur birtist okkur svo sem skuggsjá, eins og í ráðgátu, en hann kemur líka gangandi út úr þokunni, upprisinn með alla sín dýpt og vídd, teygir fram hönd sína og segir: ég elska þig.