Nú líður að jólum og tilhlökkunin farin að stíga hjá flestum okkar. Jólin í ár verða samt öðru vísi en öll önnur jól, en nú fögnum við fæðingu frelsarans í skugga heimsfaraldurs. Það er því nauðsynlegt að breyta út af vananum og margt mun ekki fara fram samkvæmt hefðum. Það á eflaust við um mörg jólaboð og annað slíkt. Það sama er að segja um kirkjuna. Í kirkjum Garða og Saurbæjarprestakalls verða ekki sungnar messur þessi jólin vegna þeirra samkomutakmarkanna sem gilda.

Undanfarna daga hafa margir komið að máli við mig, stoppað mig á götum úti eða jafnvel hringt til að segja mér hversu mikið þau eiga eftir að sakna þess að koma ekki til kirkju þessi jólin. Um leið og ég er sorgmæddur yfir því að ekki sé hægt að messa þá gleður það hjarta mitt að heyra hversu miklu máli helgihald kirkjunnar skiptir í jólahaldi margra.

Undanfarna mánuði, meðan á samkomutakmörkunum hefur staðið höfum við í prestakallinu staðið fyrir netstundum alla sunnudaga og það er ánægjulegt hversu margir hafa fylgst með því sem við sendum frá okkur.

Að sjálfsögðu verða netstundir einnig í boði um jólin. Á aðfangadag verður jólakveðja úr Akraneskirkju, hún birtist kl. 11. Á jóladag munum við sýna Jólakort Garða- og Saurbæjarprestakalls. Þar verður farið á milli kirkna prestakallsins með tónlistartriði og orði á hverjum stað, þetta er sannkölluð hátíðardagskrá sem ég vil hvetja alla til að njóta á jóladag. Stundin birtist kl. 11 en að sjálfsögðu verður hægt að horfa á seinna. Báðar stundirnar munu birtast á Facebook síðu Garða-og Saurbæjarprestakalls, heimasíðu Akraneskirkju og á vef Skessuhorns.

Á aðfangadag eru einnig sýndar messur á RÚV bæði kl. 18 og 23.30. Einnig er helgistund á jólanótt með Biskup Íslands kl. 20.30. Á jóladag er svo sýnd hátíðarmessa kl. 11.

Þrátt fyrir öðruvísi hátíðarhöld er kjarni jólanna ætíð hin sami, kraftaverkið hið sama, fæðing frelsarans í Betlehem. Ég óska öllum gleðilegra jóla og Guðs friðar og bið þess að birtan frá Betlehem muni lýsa okkur öllum þessi jól.

 

Þráinn Haraldsson

sóknarprestur