Þrátt fyrir að oft hafi árað betur en einmitt nú í ár í samfélaginu, þá hefur tíminn verið nýttur vel m.a. til framkvæmda, í Garða- og Saurbæjarprestakalli. Í þessari samantekt verður farið yfir það helsta.
Orgelhreinsun
Þann 20. apríl, hófu þau Björgvin Tómasson orgelsmiður og Margrét Erlingsdóttir störf við að hreinsa orgel Akraneskirkju. Var þetta viðamikið verk enda þurfti að taka hverja einustu pípu úr orgelinu og hreinsa hana hátt og lágt. Orgel Akraneskirkju er frá 1988 og smíðað af Bruno Christensen & Sønner. Það telur 32 raddir og því má áætla að þau Margrét og Björgvin hafi handleikið hátt í tvö þúsund pípur við sína vinnu. Verkinu lauk þann 15. maí og má segja að hljóðfærið sé nánast eins og nýtt. Mikill tærleiki fylgir þessari hreinsun og einnig stillti Björgvin hljóðfærið. Viðgerðin var m.a. fjármögnuð með peningagjöf sem hjónin Ingólfur Árnason og Guðrún Agnes Sveinsdóttir færðu Akraneskirkju að gjöf til minningar um Árna Ingólfsson lækni og Unu Jónmundsdóttur sem voru foreldrar þeirra Ingólfs og Guðrúnar.
https://www.akraneskirkja.is/orgelhreinsun-i-akraneskirkju/
Akraneskirkja
Vorið og sumarið fór einnig í það að viðhalda því fallega guðshúsi sem Akraneskirkja er. Kirkjan var máluð að innan og voru það Þrír málarar ehf sem sáu um þá list. Einnig var skipt um klæðningu utan á kirkjunni. Sett var litað alusink efni á alla útveggi og turnhúsið. Einnig var skipt um allt gler á norðurhlið kirkjunnar ásamt lagfæringum á timburverki. Kostnaður við viðhald kirkjunnar að utan verður nokkru meiri en áætlað var, sem ekki er óvanalegt í gömlum friðuðum húsum. Það voru SF smiðir sem áttu heiðurinn af framkvæmd verksins.
Atlaristafla
Þann 21. september hóf myndlistarmaðurinn Bjarni Skúli Ketilsson, Baski, viðgerð á altaristöflu Akraneskirkju. Altaristöfluna í Akraneskirkju málaði Sigurður Guðmundsson fyrir um 150 árum. Verkið prýddi upprunalega Garðakirkju en var síðar flutt á hestvagni upp á Akranes þar sem það hefur verið allar götur síðan. Á meðan á viðgerð á gömlu altaristöflunni stóð var sett í rammann utan um hana endurgerð verksins sem Baski málaði sjálfur. 2. nóvember var síðan verkinu formlega lokið og endurgerðin fékk að víkja fyrir hinni upprunalegu altaristöflu sem hafði nú fengið andlitslyftingu sem um munaði.
Það var Kirkjunefnd Akraneskirkju sem gaf viðgerðina á altaristöflunni. Hér má fræðast nánar um viðgerðina þar sem Hlédís Sveinsdóttir tók viðtal við myndlistarmanninn.
Kirkjugarðurinn
Nýr hluti kirkjugarðsins á Akranesi var vígður við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 23. september en vinna við stækkunina hefur staðið yfir á undanförnum árum.
https://www.akraneskirkja.is/vidbot-vid-kirkjugard-akraness/
Í fyrstu viku októbermánaðar var lokið við að malbika stóran hluta af akstursleiðum innan kirkjugarðsins. Það var verktakafyrirtækið Þróttur ehf sá um að leggja malbikið og BÓB sáu um undirbúningsvinnu.
https://www.akraneskirkja.is/malbikun-i-kirkjugardi/
Hallgrímskirkja í Saurbæ fékk andlitslyftingu. Kirkjan var máluð að utan en turninn er eftir og verður hann kláraður næsta vor. Eftir rafmagnsbilun var skipt um rafmagnstöflu og einnig þurfti að laga mótor í orgeli. Unnið er að undirbúningi á viðgerð á steindum gluggum. Búið er að gera viðgerðir að utan en taka þarf steinda glerið úr og verður það sent til Þýskalands til viðgerðar. Þá verður búið að glerinu á annan hátt þegar það er sett í á nýjan leik til að tryggja rétta öndun.
Innra-Hólmskirkja
Í október tók Bjarni Skúli Ketilsson, Baski, það verkefni að sér að laga og þrífa altaristöfluna í Innra-Hólmskirkju. Hann þreif hana vel, strekkti og setti fernisolíu yfir.
https://www.akraneskirkja.is/vidgerd-a-altaristoflu-i-innra-holmskirkju/