Sjá, hjálpræði þitt kemur (Jes 62.11)
Við kveikjum einu kerti á.
Hans koma nálgast fer
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesúbarnið er.
Sunnudagaskóli og aðventugarður
Á fyrsta sunnudegi í aðventu er hefðbundinn sunnudagaskóli í Akraneskirkju kl. 11. Jóhanna og Alda Björk taka fagnandi á móti börnum og fullorðnum. Söngur, biblíusaga og fleira.
Að loknum sunnudagaskóla kl. 11:30 breiðum við út birtuna í aðventugarðinum í Vinaminni, þar sem Angela Árnadóttir og Benedikt Kristjánsson stýra samverunni.
Aðventuhátíð Akraneskirkju hefst kl. 20.
Við kveikjum á fyrsta kerti aðventukransins og syngjum falleg jólalög. Helena Guttormsdóttir flytur hugleiðingu. Kór Akraneskirkju syngur og leiðir almennan söng, organisti Hilmar Örn Agnarsson. Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum. Sr Þráinn Haraldsson leiðir stundina.
Aðventan er tími vonar. Þegar skuggar skammdegisins þéttast kveikjum við aðventuljós, sem vitna um komu ljóssins eilífa. Í aðventuljósunum birtist bæn okkar: Kom, Drottinn Jesús. Aðventan er undirbúningstími, við undirbúum okkur fyrir komu hans og bjóðum hann velkominn inn í líf okkar. Aðventan er einnig kölluð jólafasta en að fasta merkir að við prófum okkur sjálf, skoðum og íhugum hvað það er sem gefur lífinu gildi og hvers vegna við þurfum á Jesú að halda og þeim boðskap sem jólin bera. Fyrsti sunnudagur í aðventu hefur hvítan lit en svo tekur við fjólublár, litur föstunnar sem er litur iðrunar og yfirbótar.
Fyrsta kerti aðventukransins sem kveikt er á nefnist spádómakerti og minnir á spádóma Gamlatestamentisins um frelsarann.
Njótum saman hátíðlegrar stundar í kirkjunni á aðventunni!