Gengið hefur verið frá ráðningu Önnu Kristjánsdóttur í starf skrifstofustjóra hjá Akraneskirkju sem auglýst var í lok nóvember. Alls sóttu 27 um starfið en fengin var óháð ráðgjöf frá Capacent við matsferlið og umsjón með ráðningarferlinu. Var það niðurstaða sóknarnefndar að loknu matsferli að Anna væri hæfust umsækjenda.
Anna Kristjánsdóttir hefur mikla reynslu af bókhaldi og hefur undanfarin ár unnið hjá Speli, bæði sem aðalbókari og síðasta ár sem framkvæmdastjóri. Hún hefur einnig mikla reynslu af þjónustu og samskiptum í gegnum störf sín hjá Slysavarnardeildinni Líf, þar sem hún hefur m.a. lokið ítarlegu námskeiði í sálrænni skyndihjálp. Anna hefur einnig verið virk í starfi innan kirkjunnar og þekkir vel til innviða hennar. Anna er búsett á Akranesi ásamt fjölskyldu sinni. Við bjóðum hana velkomna til starfa í kirkjunni um leið og við þökkum öðrum umsækjendum þann mikla áhuga sem starfinu var sýndur.