Undanfarið hafa verið miklar framkvæmdir við Innra-Hólmskirkju. Kirkjan tilheyrir Garða- og Saurbæjarprestakalli og er 130 ára gömul og stendur við sjó rétt norðan Hvalfjarðarganga.

Margir núverandi og fyrrverandi íbúar sóknarinnar höfðu miklar áhyggjur af því hve kirkjan hefði mikið látið á sjá. Eftir áeggjan nokkurra aðila tóku fermingarsystkini sem fermdust í kirkjunni árið 1963 málin í sínar hendur og hófu framkvæmdir á kirkjunni.

Söfnuður kirkjunnar hefur staðið fyrir ýmiskonar fjáröflun fyrir framkvæmdunum og hefur með sinni óeigingjörnu vinnu safnað nægu fjármagni til að hefja framkvæmdir og komast vel á veg með þær. Sömuleiðis hafa gjafir frá velunnurum kirkjunnar komið að góðum notum. Enn vantar þó nokkuð fjármagn til að ljúka framkvæmdum.

Nú þegar er allt múrverk frágengið og faglega að því staðið en það er aðeins einn hluti verkefnisins.

Viðgerð á þaki hófst um mánaðamótin júní/júlí, talsverðar fúaskemmdir komu þar í ljós en burðarvirki var í lagi. Þessari viðgerð ásamt viðgerð á turni er nú lokið og húsið tekið stakkaskiptum.

Stefnt er að því að skipta um glugga og útihurð ásamt tilheyrandi umbúnaði en að auki þarf að koma ýmsu í viðunandi horf sem látið hefur á sjá og er afleiðing viðhaldsleysis. Þá er stefnt að því að endurbæta hitakerfi kirkjunnar, þ.e. að fjarlægja orkufreka rafhitun og setja upp varmadælubúnað.

Til að þetta takist þurfum við fjárhagslega aðstoð, þess vegna leitum við nú til almennings.

 

Hægt er að styrkja verkefnið með því að leggja inn á eftirfarandi reikning:

0326-22-1873

Kt. 660169-5129