Í ljósi nýrra sóttvarnarreglna er ljóst að auglýst dagskrá í prestakallinu um kyrruviku og páska tekur miklum breytingum. Ekki verður opið helgihald þessa daga en við munum birta á facebook síðu prestakallsins og hér á heimasíðunni helgistundir, bæði á skírdag og páskadag. Á föstudaginn langa er helgistund á RÚV í umsjón biskups Íslands. Sú helgistund er tekin upp í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Kammerkór Akraneskirkju syngur og sr. Þóra Björg Sigurðardóttir flytur hugvekju ásamt fleirum.
Hallgrímskirkja í Saurbæ er opin alla daga milli kl. 9 og 18. Þar er nú að finna Krossferilsmyndir Önnu G. Torfadóttur, í anddyri kirkjunnar er að finna blöð með upplýsingum um hverja mynd og þá íhugun sem henni fylgir. Það er því tilvalið að gera sér ferð í Saurbæ, skoða þessar fallegu myndir og lesa íhuganir.
Fermingar 28. mars og 11. apríl verða með breyttu sniði. Foreldrum og fermingarbörnum bauðst að velja hvort þeir vildu fresta fermingu til Hvítasunnu eða halda fermingardeginum. Margir kausu að halda fermingardeginum og við munum ferma í mörgum litlum athöfnum. Þær athafnir eru einungis opnar fyrir fermingarbarnið og 4 gesti með hverju barni. Með þessum hætti getum við haldið allar sóttvarnarreglur en um leið verið með fallega og hátíðlega fermingarathöfn.
Það var sannarlega tilhlökkun að opna kirkjunar um páska þar sem ekki var helgihald fyrir ári síðan. Enn á ný setur veiran okkur mörk og það er sannarlega erfitt. Við vonumst þó til að þessu ástandi linni fljótt og lífið færist í eðlilegt horf. Þangað til munum við bjóða upp á helgihald á netinu og hlökkum til að taka á móti ykkur í kirkjunum þegar það verður hægt að nýjan leik.