Jes 55.1-5
Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins og þér sem ekkert fé eigið, komið, komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk. Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður? Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa.
Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Hvað er það sem skiptir okkur máli? Hvað er það sem veitir okkur sanna gleði? Gleymum við því stundum í amstri dagsins?
Í textanum hér að ofan er Jesús að minna á að stundum veljum við ekki það sem gefur okkur mest. Það ekkert endilega að vera meðvitað hjá okkur, stundum er það bara ávani. Jesaja spámaður minnir á hvað orð Guðs skiptir miklu máli og getur gefið okkur mikið.
Þessa dagana er auðvelt að verða samdauna neikvæðum fréttum og neikvæðu tali, því það hefur jú verið erfiður tími. En getum við valið úr góðu fréttirnar og góða umtalið?
Ég varð vitni að skemmtilegu átaki í vikunni hjá góðri vinkonu. Hún ákvað að birta jákvæða frétt á hverjum degi því henni þótti vera orðið heldur mikið af neikvæðum fréttum. Þessar jákvæðu fréttir veittu mér innblástur innan um hinar fréttirnar sem eru svolítið þungar þessa dagana.
Dæmi um fyrirsagnir fréttanna voru:
,,Gæfur svanur veitti níu ára dreng mikla athygli við Reykjavíkurtjörn í dag“
,,Íslenskt fyrirtæki með kaffibolla úr endurunnum kaffikorg“.
,,Hefur gefið blóð 200 sinnum. Gott að geta orðið að liði“.
,,Elstu tvíburar landsins staðráðnar í að verða 100 ára“.
,,Lögreglan kom fálka til bjargar“.
,,Haustdagarnir gerast varla fegurri“.
,,Sigraði í alþjóðlegri hjólakeppni 96 ára“.
Stundum er staðan bara þannig að við eigum erfitt með að sjá eitthvað gleðilegt í tilverunni, en þá er gott að hafa fólk í kringum okkur sem hefur fyrir því að leita að hinu jákvæða og minna okkur á það. Það er svo gott að fá jákvæðar fréttir. Eitthvað sem gefur okkur gleði og von.
Orð Guðs er okkur alltaf til staðar. Það getur verið gott að leita í orðið og sækja þangað andlega næringu. Næringu sem nýtist okkur alltaf.
Við höfum valið. Við getum valið viðhorf og við getum valið að gera það sem veitir okkur gleði og gefur okkur næringu. Við getum til dæmis sótt næringu með því að fara í kirkju eða horfa á hugvekjur kirkjunnar á neintu, lesa Guðs orð, eða með því að fara í göngur og njóta kyrrðar. Hver og einn finnur sína leið.