Býður konur velkomnar til starfa

Kirkjunefnd Akraneskirkju var formlega stofnuð árið 1945 og var Emilía Briem, kona sr. Þorsteins Briem, fyrsti formaður nefndarinnar. Ári seinna tók Lilja Pálsdóttir, kona sr. Jóns M. Guðjónssonar, við embættinu og gegndi því til 1978.

Tilgangur félagsins er að prýða Akraneskirkju og búa hana ýmsum nytsömum hlutum, sama á við um Safnaðarheimilið Vinaminni. Þá sér nefndin einnig um fermingarkyrtlana. Félagið er öllum opið sem áhuga hafa á að vinna að markmiðum þess.

Hvernig er staðið að fjáröflun?

Félagsgjöld eru engin. Fjár er aflað með glæsilegri kaffisölu 17. júní ár hvert, leigu á fermingarkyrtlum og sölu á minningarkortum. Minningarkortin fást í Módeli á Akranesi og Safnaðarheimilinu Vinaminni. Kortin voru teiknuð af Valgerði Þ. Briem og hafa þau verið seld síðan 1946 eða í rúm 70 ár.

Fermingarkyrtlarnir

Fermingarkyrtlar voru fyrst teknir í notkun í Akureyrarkirkju vorið 1954 en 20 dögum seinna, 9. maí, við fermingu í Akraneskirkju. Að fáum árum liðnum var farið að nota þá í öllum kirkjum landsins.

Séra Jón M. Guðjónsson var frumkvöðull að því að innleiða fermingarkyrtla hér á landi. Hafði hann hvatt til þess, fyrstur manna, á opinberum vettvangi. Fékk hann Margréti, dóttur sína, sem þá var búsett í Noregi, til að senda kyrtil til Íslands svo hægt væri að taka snið af honum.

Með því að láta fermingarbörn klæðast þessum kyrtlum var með einföldum og látlausum hætti eytt þeirri efna- og félagslegu mismunun sem birtist jafnan í klæðaburði fermingarbarna í fermingarathöfnum á árum áður.

Gjafir Kirkjunefndarinnar

Meðal þess sem Kirkjunefndin hefur gefið kirkjunni má nefna að hún lagði fram helming andvirðsins þegar lóð var keypt undir safnaðarheimilið, allan borðbúnað í safnaðarheimilið, dúka, gluggatjöld, kaffikönnur, hitakönnur, uppþvottavél, ofn í eldhúsið og ýmis áhöld.

Árið 1978 gaf nefndin tvo kertastjaka á altari Dvalarheimilisins Höfða og í tilefni af 50 ára afmæli nefndarinnar gaf hún kapellu Sjúkrahúss Akraness forkunnarfagran og upplýstan steindan kross eftir Leif Breiðfjörð sem kemur í stað altaristöflu.

LeifurBreiðfjörð

Þá hefur kirkjunefndin gefið kirkjunni messuklæði, kristalskaröflu á altari, ræðupúlt eftir Stefán B. Stefánsson gullsmið, þrjár útskornar númeratöflur sem gefnar voru á 100 ára afmæli kirkjunnar og glerlistaverk í sal safnaðarheimilisins eftir Leif Breiðfjörð.

Félagið 

Um 60 konur eru skráðar í Kirkjunefnd Akraneskirkju. Þrír fundir eru haldnir ár hvert. Þá hefur verið farið í heimsóknir til annarra kirkjunefnda á höfuðborgarsvæðinu. Við bjóðum nýjar konur hjartanlega velkomnar.

Núverandi formaður er Hjördís Garðarsdóttir.
(Febrúar 2015)