Næstkomandi mánudagskvöld, 27. febrúar klukkan 20.00 verður fræðslukvöld í Safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi, um sorg og sorgarviðbrögð. Prestar Garða- og Saurbæjarprestakalls halda þar erindi um sorg og áföll og leiða samtal um viðfangsefnið. Í framhaldinu verður boðið upp á stuðningshóp fyrir syrgjendur. „Þetta er nýjung hjá okkur í Garða- og Saurbæjarprestakalli að bjóða upp á fræðslukvöld einu sinni í mánuði og næsta mánudag verðum við með erindi um sorg og sorgarviðbrögð. Þetta erindi er hugsað fyrir öll sem hafa misst ástvin og vilja vinna betur úr þeirri reynslu og sömuleiðis þau sem vilja styðja við aðra í kjölfar áfalla eða missis.“ segir sr. Ólöf Margrét Snorradóttir í samtali við Skessuhorn.
Þeim sem mæta á fræðslukvöldið gefst þar kostur á að skrá sig í stuðningshóp fyrir syrgjendur hafi þeir áhuga á því og mun hópurinn hittast strax í vikunni á eftir. „Stuðningshópurinn hittist þá einu sinni í viku í fjögur til sex skipti og hafa prestarnir umsjón með þeim fundum. Á hverjum fundi er fjallað um ákveðið þema, t.d. áhrif sorgar á hjónaband eða fjölskyldu, breytt hlutverk innan fjölskyldu eftir fráfall ástvinar, tilfinningar, og svo hátíðis- og afmælisdagar. Svona hópar eru kjörið tækifæri fyrir fólk til að hitta aðra í svipuðum aðstæðum og þarna myndast öruggur vettvangur til að deila reynslu og fá stuðning. Það er æskilegt að liðnar séu einhverjar vikur eða mánuðir frá því áfallið varð en við lítum svo á að aldrei sé of langur tími liðinn,“ segir sr. Ólöf Margrét og bendir á að fólki sé sjálfsagt að hafa samband við prestana fyrir frekari upplýsingar. Einnig má finna upplýsingar á heimasíðunni akraneskirkja.is.