Eftir tæp 22 ár í þjónustu sem sóknarprestur á Akranesi þá lætur sr. Eðvarð Ingólfsson af störfum um næstu mánaðamót. Eðvarð vígðist til Skinnastaðar í Öxarfirði í febrúar 1996 en færði sig yfir á Akranes á aðventunni árið eftir. Það verður vissulega mikill missir af Eðvarði sem nú tekur að sér annars konar prestsþjónustu en áður af heilsufarsástæðum. Hann greindist með Parkinsonsjúkdóm fyrir 10 árum. Hann verður hér eftir sérþjónustuprestur.
“Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessum tímamótum“ segir Eðvarð. „Vissulega eru það vonbrigði að ég skuli vera með sjúkdóm sem háir mér að sumu leyti í lífi og starfi en ég á ekki annarra kosta völ en reyna að aðlagast honum. Gera eins gott úr hlutunum og hægt er. Ég verð bara að lifa við þetta. Til dæmis er hægt er að fara í Pollýönnu leik og hugsa til þess að þetta hefði geta orðið verra.“
Eðvarð segir þó að það sé óneitanlega svolítill léttir að láta af störfum á Akranesi enda fylgi því mikið annríki að Þjóna í svo fjölmennu prestakalli. „Það er líka öllum hollt að skipta um vettvang á starfsævinni,“ segir Eðvarð. „Ég mun, sem sérþjónustuprestur, sinna ýmsum þeim verkefnum sem mér verða falin. Við hjónin höfðum byggt okkur hús í Hveragerði, í uppeldisbæ eiginkonunar, áður en þetta kom til. Tengdaforeldrar mínir eiga þar heima og mörg skyldmenni hennar, svo að við eigum þar talsvert bakland“.
Ritstörfin
Eðvarð hefur ásamt starfi sínu sem prestur verið afkastamikill rithöfundur og gefið út alls 9 barna- og unglingabækur og 6 ævisögur. Einnig starfaði hann í nokkur ár sem dagskrárgerðarmaður á Útvarpinu, fyrst á Rás eitt og síðan Rás 2. Einnig var hann ritstjóri tímaritsins Æskunnar á níunda áratuginum. Líklegt má því teljast að skrifin verði honum huglæg á komandi árum.
„Ég hef haft það fyrir venju að skrifa ýmis skemmtileg orðatiltæki eða tilsvör sem ég hef heyrt í starfinu. Maður kynnist mörgum og það er ýmislegt að gerast í svona fjölmennu prestakalli. Við prestar erum t.d oft beðnir um að flytja hugvekjur í jólahlaðborðum og við önnur tækifæri. En ég er einnig beðinn um að flytja frásagnir í léttum dúr. Þá kemur sér vel að hafa skráð hjá sér skemmtileg atvik.“
„Lærdómstími ævin er“
Í prestþjónustu, sem spannar aldarfjórðung, hefur Eðvarð verið farsæll í starfi.
„Maður kemst langt á því að reynast öðrum vel og vera góð manneskja. Þegar maður er nýbyrjaður í prestskap, þá er maður kannski upptekinn við að gera hlutina rétt. En það skiptir þó meira máli að vera sanngjarn og umburðarlyndur við aðra. Mikilvægt er að forðast hroka og vera trúr sinni samvisku og guðsvilja,“ segir Eðvarð. „Við prestarnir erum ekki á eigin forsendum í þjónustunni heldur látum trúnna leiða okkur. Erfiðast finnst mér í preststarfinu að tilkynna svipleg andlát. Maður venst því aldrei. Stundum þarf ekki að hafa mörg orð um hlutina, oft er gott að þegja með fólki. Það er nærveran og einlægnin sem skiptir mestu máli.“
Flutningar framundan
Eðvarð hlakkar til að flytjast til Hveragerðis.
„Ég kem örugglega til með að sakna Akranesbæjar. Þaðan eru margar góðar minningar. En ég er þannig gerður að ég hugsa yfirleitt ekki mikið um að sakna einhvers. En ég veit að það er líka gott fólk í Hveragerði. Það verður gott að búa nálægt Heilsuhælinu ef ég þarf að hressa mig við. Þar er líka gott bakarí enda er ég mikill sælkeri og mun nýta mér það,“ segir sr. Eðvarð Ingólfsson að lokum.
Viðtalið birtist á vef Þjóðkirkjunnar, 22. mars síðastliðinn.