Á hátíðarsamkomu í Garðalundi á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní sl. var tilkynnt að Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti Akraneskirkju yrði bæjarlistamaður Akraness árið 2012 en svo skemmtilega vildi til að Sveinn Arnar tók þátt í hátíðarhöldunum sem undirleikari Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur, sópransöngkonu sem var bæjarlistamaður Akraness árið 2011.
Sveinn Arnar hefur verið áberandi í tónlistarlífinu á Akranesi á undanförnum árum en hann hefur m.a. stjórnað afar öflugu kórastarfi í Akraneskirkju auk þess sem hann hefur stjórnað fleiri kórum og komið fram í tengslum við hina ýmsu tónlistarviðburði. Sveinn Arnar er því vel að þessari tilnefningu kominn
Sveinn Arnar hóf nám í píanóleik ungur að árum í Tónlistarskóla Skagafjarðar hjá Stefáni R. Gíslasyni. Árið 1994 hóf hann nám í orgelleik við Tónlistarkóla Akureyrar hjá Birni Steinari Sólbergssyni og vorið 1999 lauk hann 8. stigi í orgelleik, þá undir handleiðslu Eyþórs Inga Jónssonar.
Sveinn Arnar stundaði kirkjutónlistarnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar þar sem orgelkennarar hans voru Hörður Áskelsson og Björn Steinar Sólbergsson. Hann útskrifaðist með kantorspróf þaðan haustið 2006 og einleiksáfanga frá sama skóla vorið 2010. Arnar hefur sótt námskeið í kórstjórn og orgelleik, bæði hér heima og erlendis m.a. annars hjá Mathias Wager, Lasse Ewerlöf, Dan-Olof Stenlund, Hákoni Leifssyni og Guðmundi Óla Gunnarssyni.
Frá árinu 2002 hefur hann verið organisti og kórsstjóri við Akraneskirkju. Einnig hefur hann stjórnað Kammerkór Akraness frá árinu 2004.
Starfsfólk Akraneskirkju óskar Sveini Arnari innilega til hamingju með þennan vegsauka.