Meðal fyrstu organleikara við Akraneskirkju, voru þær Valdís Böðvarsdóttir og Petrea Sveinsdóttir. Í tímaritinu Hljómlistin þann 1. febrúar 1913 kemur fram, að Valdís hafi starfað sem organleikari í hálft ár árið 1903 og síðan aftur árið 1905. Hún kemur síðan enn að starfinu árið 1909 og saman eru þær Petrea við stýrið á árunum 1910-1912. Petrea var síðan organleikari til ársins 1922. Hún var einnig fyrsti stjórnandi Karlakórsins Svana árið 1915 og stjórnaði honum í tvö ár. Mun það hafa verið einsdæmi að kona stjórnaði karlakór á þessum tíma.
https://timarit.is/page/4710122#page/n6/mode/2up

Valdís Böðvarsdóttir (1886-1964) átti heima í Böðvarshúsi (Bakkatúni 10) alla ævi. Hún fór til menntunar í Edinborg og Danmörku og varð síðan Póst- og símstjóri á Akranesi á árunum 1934-1946. (Heimild: Ljósmyndasafn Akraness)

Petrea Guðmundína Sveinsdóttir (1885-1954) átti heima í Mörk við Skólabraut á Akranesi alla ævi. Var í Kvennskólanum í Reykjavík 1901-1902, kenndi síðan skrift og handavinnu við Barnaskóla Akraness til 1917. Fór í námsferðir til Norðurlanda, Englands og Frakklands. Petrea rak bókaverslun á Akranesi og var einnig ötull hvatamaður að sjúkrahúsbyggingu á Akranesi. (Heimild: Ljósmyndasafn Akraness)
Þetta hafa verið kjarnakonur sem ekki einungis hafa ritað nafn sitt í sögu Akraneskirkju heldur hafa þær verið öflugir kraftar í bæjarlífi Akraness.